Sjö framboð hafa borist í fimm stjórnarsæti fyrir aðalfund Skeljungs sem haldinn verður á fimmtudaginn, en þar af þrír sem sitja í núverandi stjórn.

Höskuldur Ólafsson fyrrverandi bankastjóri Arion banka er ekki meðal frambjóðanda nú en eins og Viðskiptablaðið sagði frá um miðjan mánuðinn hlaut hann ekki náð tilnefningarnefndar. Auk þeirra fimm sem nefndin leggur til að verði skipaðir í stjórn bjóða nú þeir Már Wolfgang Mixa  lektor við HR og Jón Gunnar Borgþórsson sjálfstætt starfandi ráðgjafi sig fram til stjórnarinnar.

Jafnframt hafa eigendur tilskilins lágmarks 10% eignarhlutar farið fram á svokallaða margfeldiskosningu til stjórnar, en eins og sagt var frá í fréttum í sumar mistókst athafnamanninum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni þá að knýja fram margfeldiskosningu til stjórnar Haga.

Jón Ásgeir Jóhannesson er jafnframt meðal þeirra sem bjóða sig áfram í stjórn, með stuðningi tilnefninganefndar, aðrir stjórnarmenn sem bjóða sig áfram fram eru þau Birna Ósk Einarsdóttir, sem starfar sem framkvæmdastjóri hjá Icelandair, og Þórarinn Arnar Sævarsson, fjárfestir, sérleyfishafi Remax á Íslandi og eigandi Kontakt fyrirtækjaráðgjafar.

Hins vegar bjóða Færeyingarnir sig tveir sem hafa verið í stjórn sig ekki áfram fram. Það eru þau Jens Meinhard Rasmussen stjórnarformaður og framkvæmdastjóri gas- og olíuþjónustufyrirtækisins Skanski Offshore, og Ata Maria Bærentsen, sem er yfirlögfræðingur hjá danska upplýsingatæknifyrirtækinu NNIT.

Loks eru tvö framboð til tilnefninganefndar félagsins, og því sjálfkjörið, en þeim til viðbótar í tilnefningarnefnd kemur einn sem stjórn skipar, það eru þau:

  • Katrín S. Óladóttir
  • Sigurður Kári Árnason