Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, var með 37,1 milljón krónur í laun á síðasta ári. Það jafngildir þremur milljónum króna á mánuði. Hann tók við af Finni Sveinbjörnssyni um mitt ár 2010 og fékk fyrir það 30 milljónir króna í laun og aðrar greiðslur.

Fram kemur í uppgjöri Arion banka að laun Finns hafi numið 21 milljón króna árið 2009. Miðað við það hafa laun bankastjóra Arion banka hækkað um tæp 77% á tveimur árum. Hafa ber í huga að þorra bankastjóratíðar Finns var bankinn í eigu ríkisins. Kröfuhafar Kaupþings skrifuðu undir samkomulag þess efnis að eignast 87% hlut í bankanum í nóvember árið 2009. Ríkið á afganginn og heyrir hann undir Bankasýslu ríkisins.

Fram kemur í uppgjöri Arion banka sem birt var í morgun að laun starfsfólks Arion banka hafi hækkað um 9,3% í fyrra á sama tíma og launavísitalan hafi hækkað um 9,2%. Sé hoft til launaþróunar samstæðunnar allrar þá hafi meðallaun hækkað um 15,6% á árinu. Tekið er fram að það skýrist af tilkomu nýrra dótturfélaga í samstæðu bankans. Af sömu ástæðu hafi heildarlaunakostnaður hækkað um 21,4% á milli ára. Inni í þeirri tölu er gjaldfærður kostnaður vegna fækkunar starfsfólks hjá bankanum á síðasta ári.