Gera má ráð fyrir að 10-15 góð rekstrarfélög skrái sig á markað á næstu árum. Hins vegar mun líða lengri tími áður en fjármálafyrirtæki skrá sig á markað á ný.

Þetta sagði Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað sem nú stendur yfir í Turninum í Kópavogi.

Höskuldur taldi upp þá starfsgeira sem líklegir væru til að skrá sig á markað á næstu árum. Þar nefndi hann stór fasteignafélög, flutningafélög, tryggingafélög, olíudreifingarfyrirtæki, orkufyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki. Hann sagði að innan fyrrnefndra geira væru mörg góð félög sem væru eftirsóknarverð á markað.

Hér miðaði Höskuldur við næstu 2-3 ár. Hann vakti sérstaka athygli á því að ekki væri minnst á fjármálafyrirtæki í þessari upptalningu, líklega myndi líða lengri tími áður en fjármálafyrirtæki yrðu skráð á markað.