Skráning Haga á markað er ekki nauðsynleg, heldur valkostur.

Þetta sagði Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað sem nú stendur yfir í Turninum í Kópavogi.

Höskuldur minnti á að Hagar hefði ekki átt í rekstrarerfiðleikum, heldur voru það eigendurnir sem áttu í vandræðum. Þess vegna lenti félagið í höndum Arion banka, eða „mjúkum faðmi“ bankans eins og Höskuldur orðaði það.

Höskuldur fór í stuttu máli yfir skráningarferli Haga á markað en sem kunnugt er fer fram útboð í félaginu á næstunni á genginu 11 – 13,5 á hvern hlut. Þá sagði Höskuldur mikilvægt að rétt væri staðið að sölu Haga. Hér væri um gott og umsvifamikið rekstrarfyrirtæki að ræða og fyrirtæki innan samstæðunnar ættu sér djúpar rætur í þjóðarsálinni.

Höskuldur sagði að auðvelt hefði verið að selja fyrirtækið í heilu lagi. Margir hefðu sýnt því áhuga og það hefði komið honum á óvart hversu margir erlendir aðilar hefðu sýnt áhuga á því að kaupa félagið. Hins vegar hefði bankinn ákveðið að standa að því ferli sem nú er flestum kunnugt, þ.e. að selja félagið á markaði, tryggja dreifða eignaraðild og svo frv. Í því ferli hafi reynst nauðsynlegt að endurfjármagna hluta af lánum Haga auk þess sem félagið hefur selt minni rekstrareiningar (t.d. 10-11).