Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, var með 44,5 milljónir króna í laun hjá bankanum á síðasta ári. Þetta svarar til 3,7 milljóna króna á mánuði. Þetta er 13 milljónum meira en Birna Einarsdóttir , bankastjóri Íslandsbanka, var með í árslaun á sama tíma. Mánaðarlaun hennar í fyrra námu 31,5 milljónum króna sem svarar til rétt rúmra 2,6 milljóna króna á mánuði. Höskuldur er þessu samkvæmt með milljón meira á mánuði en Birna. Fram kemur í uppgjöri Arion banka að Höskuldur var með 37,1 milljóna króna í laun árið 2011 og hækka laun hans því um 20% á milli ára eða um sem nemur 7,4 milljónum króna.

Með tvöfalt hærri laun

Þá kemur fram í uppgjörinu að Monica Caneman, stjórnarformaður Arion banka, var með 18,6 milljón krónur í heildarlaun í fyrra. Það jafngildir rúmum 1,5 milljóna launum á mánuði. Til samanburðar námu árslaun hennar sem stjórnarformaður 16,1 milljón árið 2011. Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, var á sama tíma með 7,2 milljónir króna í laun í fyrra.

Aðrir stjórnarmenn Arion banka voru með frá 5 til 12 milljónir króna í árslaun hjá bankanum í fyrra. Þá kemur fram að níu stjórnarmenn sem sæti eiga í framkvæmdastjórn Arion banka voru samtals með 227,6 milljónir króna í heildarlaun. Það er 17,4 milljónum meira en þeir fengu árið 2011. Ef laununum er deilt niður nema þau tæpum 25,3 milljónum króna á mann og voru þeir með að meðaltali 2,1 milljón í laun á mánuði. Það er sambærilegt og sjö framkvæmdastjórar hjá Íslandsbanka voru með í mánaðarlaun í fyrra.