Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, hyggst af persónulegum ástæðum ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi. Í tilkynningu frá Birki segir að hann hafi á síðustu fimmtán árum helgað líf sitt stjórnmálum og hyggist á þessum tímapunkti snúa sér að öðrum verkefnum.

Þeir Birkir Jón og Sigmundur Davíð sendu fjölmiðlum í dag sameiginlega tilkynningu og sagðist Birkir Jón hafa hvatt Sigmund til að bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi. Í síðasta prófkjöri hafnaði Birkir Jón í fyrsta sæti í prófkjöri í kjördæminu en Sigmundur Davíð bauð sig fram í Reykjavík.

Í tilkynningu Sigmundar Davíðs segir að Birkir Jón hafi, þegar Sigmundur hóf þátttöku í stjórnmálum, boðist til að stíga til hliðar í kjördæminu. Sigmundur hafi hins vegar ekki þegið það boð á og boðið sig fram í Reykjavík. „En nú þegar Birkir Jón hverfur á braut hyggst ég sækjast eftir því að vera í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi og taka þátt í baráttunni fyrir því að flokkurinn endurheimti stöðu sína sem stærsti flokkur kjördæmisins,“ segir Sigmundur Davíð.

Þessi tíðindi berast degi eftir að Ríkisútvarpið greindi frá því að Höskuldur hyggðist sækjast eftir fyrsta sæti í Norausturkjördæmi. Það lítur því út fyrir að Höskuldur og Sigmundur muni nú takast á í kosningabaráttu öðru sinni en eins og flestir muna buðu þeir sig báðir fram til formennsku í Framsóknarflokknum árið 2009. Fyrir mistök lýsti kjörstjórn Höskuld formann flokksins en hafði þá víxlað atkvæðunum og kom á daginn að Sigmundur hafði hlotið meirihluta atkvæða.

Yfirlýsing frá Birki Jóni Jónssyni:

Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi þingsetu eftir þetta kjörtímabil af persónulegum ástæðum og mun ekki sækjast eftir endurkjöri sem varaformaður Framsóknarflokksins. Ég hef á sl. 15 árum helgað líf mitt stjórnmálum og á þessum tímapunkti hef ég ákveðið að snúa mér að öðrum verkefnum. Ég vil þakka framsóknarfólki um allt land frábært samstarf síðustu ár og er ákaflega þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt sem varaformanni Framsóknarflokksins og oddvita í Norðausturkjördæmi. Undanfarnar vikur hef ég hvatt Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, til að bjóða sig fram í kjördæminu. Um leið og ég þakka Sigmundi gott og árangursríkt samstarf fagna ég því að hann skuli vilja bjóða fram krafta sína. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins

Yfirlýsing frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni:

Um leið og ég þakka Birki Jóni fyrir gott og ánægjulegt samstarf undanfarin þrjú ár óska ég honum alls hins besta á þeirri braut sem hann hefur nú kosið.Samskipti okkar Birkis hafa frá upphafi verið frábær. Á sínum tíma, þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum, fyrir áeggjan fólks í Norðausturkjördæmi, bauðst Birkir Jón til þess að fyrra bragði að stíga til hliðar þegar hart var lagt að mér að bjóða mig fram fyrir kjördæmið. Ég afþakkaði það að sinni og lýsti því yfir að ég myndi byrja á því að bjóða mig fram í Reykjavík. En nú þegar Birkir Jón hverfur á braut hyggst ég sækjast eftir því að vera í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi og taka þátt í baráttunni fyrir því að flokkurinn endurheimti stöðu sína sem stærsti flokkur kjördæmisins.