Bankastjórinn og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka keyptu stærstu hlutina í útboðinu sem staðið hefur yfir síðustu daga af fjárhagslega tengdum aðilum. Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka keypti alls 200 þúsund hluti, í útboði Arion banka sem lauk í gær.

Útboðsgengið var að lokum 75 krónur á hlut sem þýðir að hann keypti fyrir samtals 15 milljónir, en eiginkona hans keypti 2 þúsund hluti til viðbótar, á 150 þúsund krónur. Stefán Pétursson framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka keypti einnig 200 þúsund hluti, á samtals 15 milljónir króna.

Måns Höglund stjórnarmaður í Arion banka keypti 100 þúsund hluti, á samtals 7,5 milljónir króna og Iða Brá Benediktsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka keypti 97.333 hluti í bankanum, á samtals 7,3 milljónir króna.

Lýður Þór Þorgeirsson framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs og starfandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Arion banka keypti 66.666 hluti á rétt tæpar fimm milljónir króna.

Eva Nanny Christina Cederbalk, stjórnarformaður Arion banka keypti samtals 49.333 hluti á samtals 3,7 milljónir króna en Gísli Sigurbjörn Óttarsson framkvæmdastjóri áhættustýringarsviðs keypti 20 þúsund hluti fyrir 1,5 milljónir króna.

Leiðarar, pistlar og skoðanadálkar um Arion banka:

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: