Höskuldur Ari Hauksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. Hann mun hefja störf í mars 2007 að því er kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Höskuldur Ari hefur undanfarin ár starfað sem forstöðumaður (Executive Director) og afleiðusérfræðingur í hrávörum hjá Goldman Sachs (frá 2003). Í starfi sínu þar hefur hann unnið að þróun fjárfestaviðskipta í hrávörum og haft yfirumsjón með sjö manna teymi sérfræðinga í London, New York og Singapore. Goldman Sachs lenti í fyrsta sæti á heimsvísu í könnun tímaritsins RISK árið 2006 fyrir fjárfestaafurðir í hrávörum. Þá starfaði Höskuldur Ari sem yfirmaður rannsókna hjá RWE Trading (2000-2003) og sérfræðingur í rannsóknum hjá Olsen & Associates (1998-2000).

Hann kláraði doktorsnám í stærðfræði frá University of California árið 1998, BS gráðu í stærðfræði og eðlisfræði (tvöföld gráða) frá Háskóla Íslands 1994. Höskuldur Ari mun byggja upp Markaðsviðskipti bankans, á Íslandi og erlendis, og má gera ráð fyrir að umsvif þess sviðs aukist umtalsvert á þessu ári. Nú þegar hefur teymi erlendra sérfræðinga verið ráðið til Markaðsviðskipta og mun taka til starfa á skrifstofum Straums-Burðaráss í London í febrúar segir í tilkynningu til kauphallarinnar.