*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 3. maí 2013 07:50

Höskuldur svarar Róberti: Vill málefnalega gagnrýni

Bankastjóri Arion segir að enginn hafi viljað axla ábyrgð á rekstri Afls sparisjóðs á Siglufirði eftir hrunið.

Ritstjórn
AFL kom laskaður út úr fjármálahruninu og hefur Arion banki þurft að fjármagna sjóðinn og fella skilyrt niður skuldir að fjárhæð 2,4 milljarðar króna, segir Höskuldur Ólafsson.
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Ég gerði mér grein fyrir því þegar ég tók að mér starf bankastjóra um mitt ár 2010 að verkefnin framundan væru erfið, margar erfiðar ákvarðanir þyrfti að taka og ekki yrðu þær alltaf öllum að skapi. Vissulega eru störf okkar og þær ákvarðanir sem við höfum tekið ekki yfir gagnrýni hafnar. Ég ætla samt að leyfa mér að óska þess að slík gagnrýni sé málefnaleg,“ segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Höskuldur vísar þar í grein sem Róbert Guðfinnsson skrifaði í gær þar sem hann gagnrýndi stjórnendur Arion fyrir það sameina sparisjóð á Siglufirði, Afl sparisjóð, sem var gjaldþrota eftir hrun, bankanum. Höskuldur svarar Róberti, sem fór fram á afsögn hans, í dag.

„Frá því að AFL varð dótturfélag Arion banka höfum við lagt okkur fram um að taka á málefnum sjóðsins af ábyrgð. Það höfum við sýnt í verki með verulegum fjárhagslegum stuðningi til að tryggja að sjóðurinn uppfylli kröfur Fjármálaeftirlitsins (FME) og geti haldið áfram starfsemi. Á tímabilinu hefur enginn annar stigið fram og lýst yfir vilja til að axla slíka ábyrgð á sjóðnum,“ skrifar Höskuldur í Morgunblaðið.