Höskuldur Hrafn Ólafsson, bankastjóri Arion banka, er tekjuhæstur forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, að Kauphöllinni meðtalinni, samkvæmt upplýsingum úr álagningarskrá. Eru mánaðartekjur Höskulds 3.850.893 krónur, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Næstur honum er Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, með 3.663.808 krónur á mánuði og þar á eftir kemur Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka með 3.401.432 krónur.

Bankastjóri Landsbankans, stærsta banka landsins, Steinþór Pálsson, er í tíunda sæti yfir tekjuhæstu framkvæmdastjórana á fjármálamarkaði með 1.738.825 krónur á mánuði.

Tíu tekjuhæstu æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja eftir fjárhæð mánaðartekna:

  1. Höskuldur Hrafn Ólafsson - Arion - 3.850.893 kr.
  2. Hannes Frímann Hrólfsson - Virðing - 3.662.808 kr.
  3. Birna Einarsdóttir - Íslandsbanki - 3.401.432 kr.
  4. Sigurður Atli Jónsson - MP banki - 3.339.786 kr.
  5. Sigurður Viðarsson - TM - 3.111.918 kr.
  6. Sigrún Ragna Ólafsdóttir - VÍS - 3.088.768 kr.
  7. Flóki Halldórsson - Stefnir - 2.268.290 kr.
  8. Páll Harðarson - Kauphöllin - 2.113.472 kr.
  9. Ragnar Páll Dyer - Júpíter - 2.103.200 kr.
  10. Steinþór Pálsson - Landsbankinn - 1.738.825 kr.

Fyrirvari og athugasemd ritstjóra:

Upplýsingarnar í fréttinni hér að ofan eru byggðar á upplýsingum úr álagningarskrá. Hafa ber í huga að hér er aðeins miðað við þær tekjur sem fólk greiðir tekjuskatt af, en ekki aðrar tekjur, svo sem fjármagnstekjur. Því geta einhverjir verið með hærri mánaðartekjur en þær sem hér eru tilgreindar. Þá endurspegla tölurnar ekki föst laun viðkomandi, heldur geta komið inn ýmis skattskyld hlunnindi. Að lokum er ekki loku fyrir það skotið að vitlaust hafi verið lagt á fólk og það því með lægri tekjur. Er því rétt að taka þessum tölum með ákveðnum fyrirvara, þótt reynt hafi eftir fremsta megni að hafa þær réttar. Reynt er að skrá fólk er skráð í það starf sem það gegnir nú, en í einhverjum tilvikum skipti það um starf annað hvort í fyrra eða á þessu ári.

Viðskiptablaðið hefur lengi verið á þeirri skoðun að persónulegar fjárhagsupplýsingar um einstaklinga, s.s. þær sem koma fram í álagningarskrá eigi ekki að liggja opnar. Hins vegar verður ekki hjá því litið að um er að ræða opinberar upplýsingar, m.a. um áhrifafólk í atvinnulífi og stjórnmálum. Viðskiptablaðið hefur undanfarin ár birt umfjöllun um nokkra þessara einstaklinga byggða á þessum upplýsingum og gerir það í ár líka. Verði birtingu þessara upplýsinga hætt mun Viðskiptablaðið fagna því og leita annarra leiða til að afla gagna til upplýsingar fyrir lesendur sína.