Höskuldur Þór Þórhallsson hdl. og fyrrverandi alþingismaður hefur gengið til liðs við Íslensku lögfræðistofuna. Fyrir á stofunni eru Haukur Örn Birgisson hrl., Arnar Kormákur Friðriksson hdl., Eggert Páll Ólason hdl. og Ómar Örn Bjarnþórsson hdl. sem eru eigendur stofunnar. Höskuldur Þór útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2003 og hlaut réttindi til starfa sem héraðsdómslögmaður árið 2005. Samhliða námi í lögfræði nam Höskuldur jafnframt viðskipta- og stjórnmálafræði við HÍ. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslensku lögfræðistofunni.

Höskuldur stundaði nám í Evrópurétti og alþjóðlegum einkamálarétti við Háskólann í Lundi í Svíþjóð árið 2001. Hann var aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur á árunum 2003 til 2005 og sat í stjórn Stéttarfélags lögfræðinga frá 2004 til 2006. Hann starfaði sem lögmaður á Mörkinni lögmannstofu hf. frá 2005 til 2007 þar sem hann öðlaðist mikla reynslu af málflutningsstörfum og hagsmunagæslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, opinberar stofnanir og sveitarfélög. Höskuldur var einnig stundakennari í viðskiptarétti við Háskólann í Reykjavík frá 2005 til 2007.

Höskuldur sat á Alþingi frá 2007 til 2016 fyrir Norðausturkjördæmi. Á þeim árum sat Höskuldur í fjölmörgum nefndum Alþingis, svo sem menntamálanefnd, umhverfisnefnd, viðskiptanefnd, fjárlaganefnd og svo umhverfis- og samgöngunefnd þar sem hann var formaður. Hann átti einnig sæti í Þingvallanefnd og kjörbréfanefnd Alþingis ásamt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Hann var jafnframt formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs frá 2013 til 2016 og gegndi stöðu forseta Norðurlandaráðs árið 2015. Undanfarna mánuði hefur Höskuldur starfað sem formaður nefndar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur það verkefni að móta stefnu fyrir Norður-Atlantshafssvæðið. Höskuldur situr jafnframt í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans (NIB).