Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, settist í bankastjórastólinn sumarið 2010, en hann var áður forstjóri Valitor. Arion banki er eitt stærsta fyrirtæki landsins með fjölbreytta starfsemi og þess vegna í mörg horn að líta fyrir Höskuld.

Arion banki skilaði árshlutauppgjöri fyrir nokkrum dögum, þar sem sagt var frá 15 milljarða króna hagnaði á fyrsta fjórðungi þessa árs, en uppgjörin hafa verið nokkuð græn frá hruni.

Alltaf þegar bankarnir birta uppgjör verða sumir mjög reiðir. Hefur þú skilning á því?

„Já ég get alveg sagt að ég hafi skilning á því að það sé ákveð­in tortryggni í garð bankanna, sé tekið tillit til þess hvaðan við komum. Þetta er ekki bundið við Ísland heldur er þetta viðfangsefni víða um heim. Ég hef skilning á því að menn velti þessu upp,“ segir Höskuldur.

Hann segir að í umræðu um hagnað bankanna þurfi menn að skilja á milli einskiptisliða, sem séu í raun bara uppgjör á skuldum frá því fyrir hrun, og síðan hagnaðar af kjarnastarfsemi bankans, sem hefur verið heldur lítill miðað við eigið fé bankans. „Grunnreksturinn hjá okkur hefur verið að lagast ár frá ári og hann er í sjálfu sér að verða viðunandi. Af reglulegri starfsemi er um tíu prósent arðsemi eigin fjár, en eigið fé bankans er um 177 milljarðar.“

Höskuldur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .