Fyrirtækið Hostelbookers hefur valið Nordic eMarketing til að markaðssetja vefi þeirra í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Hollandi og Póllandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nordic eMarketing sem hefur undanfarna mánuði unnið með fyrirtækinu á þessum mörkuðum og hafa forsvarsmenn Hostelbookers óskað eftir frekari samstarfi.

Fram kemur í tilkynningunni að HostelBookers fengu „Best Youth Product“ verðlaunin á „the British Youth Travel Awards“ árið 2008, en þau verðlaun eru talin mikill heiður í breska ferðageiranum. Verðlaunin eru veitt af „British Educational Travel Association“ (BETA). Auk þessarra verðlauna hafa þeir fengið mikið lof fyrir vef sinn.

„HostelBookers er frábært dæmi um marktækan árangur á netinu sem fleiri fyrirtæki ættu að taka sér til fyrirmyndar. Íslensk fyrirtæki ættu að horfa meira til netsins í leit að viðskiptatækifærum, því sjaldan hafa verið fleiri tækifæri en á þessum tímum“ segir Hreggviður St. Magnússon framkvæmdastjóri Nordic eMarketing í tilkynningunni.

Nordic eMarketing er alíslenskt ráðgjafafyrirtæki með höfuðstöðvar sínar á Íslandi, en starfsstöðvar í Bretlandi, Svíþjóð, Kína, Tékklandi og Bandaríkjunum. Hjá fyrirtækinu og samstarfsaðilum þess starfa um 45 manns.

Nordic eMarketing hefur sérhæft sig í margtyngdum samskiptum og markaðssetningu á Internetinu og meðal núverandi viðskiptavina eru Teknomek, Loewy Group, Icelandair, HotelClub, London Metro University, Actavis, Becta og NFL.