Norður-Kórea hefur haft í miklum hótunum upp á síðkastið. Her ríkisstjórnarinnar segist ráða yfir kjarnavopnum - bæði kjarnasamrunavopnum og kjarnaklofningsvopnum - og langdrægum eldflaugum. Ríkisstjórnin hefur nú lýst því yfir að hún sé fullfær um að gera gjörsamlega út af við Manhattan-eyju í New York borg með einni af kjarnorkueldflaugum sínum.

Fréttastofa ríkisins þarlendis lýsti því yfir að samrunavopn norður-kóreska hersins væru mikið kraftmeiri en þau sem Sovétríkin höfðu yfir að ráða á sínum tíma - en aflmesta sprengja allra tíma, Tsar Bomba, var vetnissprengja úr smiðjum Sovétmanna. Hún hafði 50 megatonna sprengikraft, sem er margfaldur sprengikraftur venjulegrar kjarnorkusprengju.

„Ef vetnissprengja okkar yrði komið fyrir á langdrægri eldflaug og hún látin falla á Manhattan myndu allir íbúar borgarinnar deyja samstundis," sagði í fréttaflutningi ríkisfréttastofunnar. „Borgin myndi brenna og verða að ösku," sagði enn fremur í fréttinni. Þá var vísað í kjarnorkuvísindamann að nafni Cho Hyong Il.

Athygli vekur hversu undarlegt það er að segja frá slíkum fréttum á vef ríkisfréttastofunnar norður-kóresku - en á sama fréttavef eru birtar frásagnir af kanínurækt og hönnun skólataskna ungra barna.