Günther Oettinger, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og fer meðal annars með málefni fjölmiðla, hefur hótað Pólverjum því að setja af stað ferli sem gæti leitt til þess að Pólland missi atkvæðarétt sinn hjá leiðtogaráði sambandsins. Í viðtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) segir Oettinger að margar ástæður séu til að virkja samþykktir sambandsins um aðgerðir til að bregðast við ógnum við réttarríki í einstökum aðildarríkjum.

Pólsk stjórnvöld hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarna mánuði vegna þess sem kallaðir hafa verið einræðistilburðir . Gagnrýnin hefur einna helst beinst að afskiptum ríkisstjórnarinnar að stjórnlagadómstóli landsins. Á miðvikudaginn tóku síðan í gildi lög í Póllandi sem gáfu stjórnvöldum beina stjórn yfir ríkisfjölmiðlum.

Ríkisstjórnin getur nú sjálf skipað forstjóra ríkisfjölmiðla, þrátt fyrir áhyggjur ESB af löggjöfinni og hávær mótmæli frá samtökum um fjölmiðlafrelsi. Pólska blaðið Gazeta Wyborcza greindi frá því á dögunum að fjórir háttsettir stjórnendur hjá ríkisfjölmiðliinum TVP hefðu sagt upp í kjölfar lagabreytingarinnar.

Málið á dagskrá framkvæmdastjórnarinnar

Samkvæmt FAZ hefur Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sett málið á dagskrá á næsta fundi framkvæmdastjórnarinnar hinn 13. janúar. Juncker er sagður munu reyna að virkja samþykktir um ógnir við réttarríki.

Verði það samþykkt getur framkvæmdastjórnin gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við brotum á grunngildum Evrópusambandsins. Það getur á endanum leitt til þess að Pólland missi atkvæðarétt sinn hjá leiðtogaráði sambandsins.