Að undanförnu hefur nokkuð borið á að Íslendingar fái hótunarbréf í tölvupósti sem virðist vera frá leigumorðingja þar sem viðtakanda er hótað lífláti greiði viðkomandi ekki háa upphæð á bankareikning erlendis, samkvæmt upplýsingum sem embætti ríkislögreglustjóra sendi frá sér í dag. Er fólk hvatt til að leita til lögreglu berist því slíkur póstur.

Í upplýsingum frá embættinu kemur fram að um sé að ræða nýja tegund ruslpósts sem kallast á ensku „hit man scam” eða „killer spam”. Þessi tegund tölvupósts er ein tegund svindls sem kennd er við grein „419” en það er ákvæði í nígerískum hegningarlögum er varðar fjársvik. Alríkislögreglan í Bandaríkjunum FBI og New Scotland Yard í Bretlandi hafa fengið margar kvartanir frá fólki vegna þessara sendinga. Samkvæmt yfirmanni kvörtunarmiðstöðvar internetsins hjá FBI (IC3) er þessum tölvubréfum ekki beint gegn fyrirfram ákveðnum aðilum og hefur IC3 ekki fengið fregnir af því að fólk hafi tapað peningum á þessu eða að einhverjum hafi verið unnið mein.

Í tölvupóstinum kemur fram að greiði viðtakandi tiltekna upphæð inn á bankareikninga erlendis þá verði lífi viðkomandi þyrmt. „Svikahrapparnir beita ýmsum brögðum og er nýleg aðferð þeirra að senda tölvupóst í nafni erlendra lögreglustofnana eins og FBI. Þar kemur fram að nafn viðtakanda hafi fundist í fórum handtekins leigumorðingja sem myrt hafi einstaklinga í Bandaríkjunum og Bretlandi. Fórnarlömbin hafi ekki greitt þá upphæð sem krafist var fyrir að þyrma lífi þeirra. Er viðtakandi beðinn um að svara tölvupóstinum til að hjálpa til við frekari rannsókn málsins,” segir í viðvörun ríkislögreglustjóra vegna málsins.  “Svikahrapparnir velja netföng af handahófi og eins og öðrum „Nígeríubréfum” á alls ekki að svara þessum. Ef slíku bréfi er svarað halda hótanirnar áfram.”