Svissneskir fjárfestar eru margir hverjir afar ósáttir við kaup UBS á Credit Suisse og íhuga að höfða mál vegna neyðarlaga sem svissnesk stjórnvöld settu á til að komast hjá atkvæðagreiðslu hjá hluthöfum vegna samrunans. Financial Times greinir frá.

Ethos Foundation, sem talar fyrir hönd lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta sem eiga allt að 5% hlut í svissnesku bönkunum tveimur, sagði að yfirtakan væri „mikil tímaeyðsla fyrir hluthafana og svissneska hagkerfið“.

„Við munum kanna alla valkosti í stöðunni á næstu dögum, þar á meðal að fara fyrir dómstóla, til að ná fram niðurstöðu um ábyrgð í þessu upplausnarástandi,“ sagði Ethos í yfirlýsingu.

Skuldabréfaeigendur bálillir

Lánadrottnar Credit Suisse eru einnig undrandi á skilmálum kaupsamningsins og ákvæðum neyðarlaga svissneskra stjórnvalda. Finma, fjármálaeftirlit Sviss, tilkynnti að víkjandi skuldabréfaútgáfa Credit Suisse, sem tilheyrir viðbótareiginfjárþætti 1 (AT1), að andvirði 17 milljarða dala, verði færð alfarið niður.

„Í mínum augum er þetta brot á lögum,“ hefur FT eftir sjóðstjóra hjá Aquila Asset Management, sem fjárfestir í AT1 skuldabréfum. Hann sagði galið að skuldabréfaeigendur standi uppi með ekki neitt á meðan hlutabréfaeigendur fá 3,2 milljarða dala í sinn hlut. „Við höfum aldrei séð þetta áður og ég held að þetta yrði aldrei leyft aftur.“

Stofnandi og forstjóri Algebris Investments sagði að neyðarlögin væru mistök af hálfu stjórnvalda. „Þeir breyttu lögunum og hafa í rauninni stolið skuldabréfum að andvirði 16 milljarða dala,“ á fjárfestafundi í morgun.

Seðlabanki Evrópu, Skilavald Evrópusambandsins og Evrópska kerfisáhætturáðið reyndu að róa eigendur AT1 skuldabréfa annarra banka með yfirlýsingu í morgun þar sem stofnanirnar sögðust líta á það sem meginreglu að AT1 bréf skuli vera á undan almennu hlutafé í kröfuröðinni.