*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 26. nóvember 2013 17:58

Hóta ríkinu málssókn

Bæði slitastjórnir Kaupþings og Glitnis mótmæla harðlega að sérstakri skattlagningu á þrotabú föllnu bankanna.

Jón Hákon Halldórsson
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlögin við upphaf þings í haust.
Haraldur Guðjónsson

Bæði slitastjórn Glitnis og slitastjórn Kaupþings segja að fyrirhuguð skattlagning á bankastofnanir í slitameðferð, sem kveðið er á um í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár brjóti gegn grundvallarákvæðum stjórnarskrárinnar. Þetta kemur fram í umsögnum sem slitastjórnirnar hafa sent efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. 

„Færi svo að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt telur  Glitnir fulla ástæðu til þess að látið verði reyna á grundvöll og lögmæti skattheimtunnar fyrir  stjórnvöldum og dómstólum,“ segir í erindi slitastjórnar Glitnis. Þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem bæði Glitnir og Kaupþing telja að skattheimtan brjóti gegn eru ákvæði um jafnræði og eignarrétt. Að auki benda slitastjórnirnar á ákvæði um skattlagningu í 40. og 77. grein stjórnarskrárinnar. 

Bæði slitastjórn Kaupþings og slitastjórn Glitnis segja að það liggi þegar fyrir að almennir kröfuhafar fái alls ekki allar kröfur sínar greiddar. „Verður þvi að telja fyrirkomulag skattheimtunnar ómálefnalegt og órökrétt, enda taki skatturinn ekki mið af raunverulegu verði eða sannvirði þeirra eigna sem hann er reiknaður  af, þ.e. þeim lýstu kröfum sem fjárhæð heildarskulda fjármálafyrirtækja í slitameðferð samanstanda af,“ segir Glitnir meðal annars í sinni umsögn.