Stjórn Bandaríkjaforsetans Donald Trump hefur hótað að leggja innflutningstolla að virði 2,4 milljarða dollara á franskar vörur líkt og osta, kampavín, snyrtivörur og handtöskur. BBC greinir frá þessu.

Þessar hótanir koma í kjölfar áforma franskra stjórnvalda um að leggja sérstakan skatt á stafræna þjónustu, en slíkir skattar myndu bitna á bandarískum stórfyrirtækjum líkt og Google, Amazon og Facebook.

Frakkar vilja, líkt og mörg önnur Evrópulönd, takmarka getu ofangreindra tæknirisa til að forðast greiðslu skatta í löndunum. En bandarísk viðskiptayfirvöld vilja hins vegar meina að með þessu sé vegið ómaklega að tæknirisunum.

Bruno Le Maire, viðskipta og efnahagsráðherra Frakklands, segir tollahótanir Bandaríkjamanna „óásættanlegar“ og gefur í skyn að Frakkar hyggi á hefndaraðgerðir ef skatturinn verði að veruleika.