*

mánudagur, 27. janúar 2020
Erlent 4. desember 2019 07:02

Hóta tollum á kampavín og osta

Stjórn Bandaríkjaforsetans Donald Trump hefur hótað að leggja innflutningstolla að virði 2,4 milljarða dollara á franskar vörur.

Ritstjórn
Kampavínsunnendur í Bandaríkjunum vonast eflaust eftir því að tollarnir verði ekki að veruleika, enda gæti verð vínsins rokið upp úr öllu valdi ef svo fer.

Stjórn Bandaríkjaforsetans Donald Trump hefur hótað að leggja innflutningstolla að virði 2,4 milljarða dollara á franskar vörur líkt og osta, kampavín, snyrtivörur og handtöskur. BBC greinir frá þessu.

Þessar hótanir koma í kjölfar áforma franskra stjórnvalda um að leggja sérstakan skatt á stafræna þjónustu, en slíkir skattar myndu bitna á bandarískum stórfyrirtækjum líkt og Google, Amazon og Facebook.

Frakkar vilja, líkt og mörg önnur Evrópulönd, takmarka getu ofangreindra tæknirisa til að forðast greiðslu skatta í löndunum. En bandarísk viðskiptayfirvöld vilja hins vegar meina að með þessu sé vegið ómaklega að tæknirisunum. 

Bruno Le Maire, viðskipta og efnahagsráðherra Frakklands, segir tollahótanir Bandaríkjamanna „óásættanlegar“ og gefur í skyn að Frakkar hyggi á hefndaraðgerðir ef skatturinn verði að veruleika.

Stikkorð: Bandaríkin Frakkland tollar Bandaríkin ostar kampavín