Starfsmenn hjá stórfyrirtækinu Amazon í Bandaríkjunum hafa margir hverjir hótað að fara í verkfall, þar sem þeim þykir fyrirtækið ekki hafa gert nóg til að tryggja öryggi þeirra. Eru starfsmennirnir hræddir um að vegna þessa séu þeir berskjaldaðir fyrir því að sýkjast af kórónuveirunni. Starfsmenn bandaríska heimsendingarfyrirtækisins Instacart, sem býður upp á heimsendingar á matvælum, hafa sömuleiðis hótað verkföllum að sömu ástæðu. BBC greinir frá.

Pressan á Amazon og fleiri fyrirtæki, sem sjá um heimsendingar á vörum, til að verja starfsmenn sína fyrir mögulegum kórónuveiru smitum fer sífellt vaxandi. Sjaldan hefur verið jafn mikið að gera og undanfarið hjá slíkum fyrirtækjum enda margir sem kjósa að nýta sér heimsendingar, eða hreinlega neyðast til þess, vegna samkomubanna og annarra fjöldatakmarkana vegna kórónuveirunnar.

Hafa þingmenn meðal annars skrifað Jeff Bezos, forstjóra Amazon, bréf þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum sínum á aðbúnaði og vinnuaðstæðum starfsmanna á tímum kórónuveirunnar.

Bæði fyrirtækin segjast hafa gert varúðarráðstafanir til að verja starsmenn sína, þrátt fyrir gífurlega aukningu í eftirspurn.