*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 12. febrúar 2017 18:02

Hótaði að reka mig

Nýráðinn framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ásta Sigríður Fjeldsted, hefur starfað víða um heim fyrir McKinsey og & Co, IBM og Össur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ásta Sigríður Fjeldsted nýráðinn framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs hefur starfað síðustu ár bæði í Danmörku og Japan fyrir alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company, en hún er nú að flytja heim til Íslands til að hefja störf sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs 1. júní næstkomandi.

„Mig hafði alltaf dreymt um að fara í tungumálanám erlendis,“ segir Ásta. „Ég var reyndar kominn inn í háskólann í Karlsruhe í Þýskalandi, en þarna tók ég svona flipp ár og fór til Frakklands í frönskunám og hef í raun ekki komið heim síðan.“

Ásta verður næstu mánuði með annan fótinn í Japan þar sem hún starfar enn, ásamt því að sinna þriggja mánaða dóttur hennar og sambýlismanns síns, Bolla Thoroddsen, formanni Verslunarráðs Íslands í Japan.

„Sú franska sem ég lærði úti leiddi til þess að ég fór að vinna fyrir Össur í Frakklandi,“ segir Ásta. „Þetta var hjá gömlu fjölskyldufyrirtæki sem Össur hafði nýlega tekið yfir, en nánast enginn enskumælandi maður var í þessu yfir 100 manna fyrirtæki svo ég var send út til að vera markaðs- og vörustjóri hjá þeim.“

Síðar fór Ásta aftur til Danmerkur til að klára námið.

„Í mastersnáminu var ég með nokkuð frjálsar hendur og vann ég sem hluti af því eiginlega fulla vinnu fyrir IBM í Danmörku þar sem ég var að aðstoða aðstoðarforstjórann,“ segir Ásta sem þakkar honum að hún fór að vinna fyrir McKinsey, en fyrirtækið hafði sýnt áhuga á að fá hana til starfa að loknu námi.

„Ég vissi ekki mikið um McKinsey og ég nefni þetta við aðstoðarforstjórann Kim Østrup en þá hótaði hann að reka mig ef ég tæki ekki þeirra boði. Ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið því við áttum svo gott samstarf, en hann vissi að McKinsey væri svo frábær skóli.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.