Guðríður Arnardóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi ætlar að kæra Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóra fái hún ekki svör við fyrirspurn vegna starfa Guðrúnar Pálssonar sviðsstjóra sérstakra verkefna og fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs. Þetta kemur fram í bókun sem Guðríður lagði fram á fundi bæjarráðs í gær.

„Ítrekað hefur verið óskað greinargerðar frá bæjarstjóra vegna starfa sviðsstjóra sérstakra verkefna. Staðan var stofnuð í febrúar sl. og lögð niður í lok október. Óskað hefur verið eftir því að bæjarstjóri geri grein fyrir því hver var ávinningur þess að stofna umrædda stöðu fyrir rekstur bæjarins og þar með bæjarbúa. Hver er heildarkostnaður bæjarsjóðs vegna umræddrar stöðu og hvað réttlætir það að staðan var stofnuð?“ spyr Guðríður í bókuninni.

Guðríður segir að Ármanni Kr. Ólafssyni sé skylt, sem framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, að svara fyrirspurnum kjörinna fulltrúa. „Berist svar ekki frá bæjarstjóra á næsta fundi bæjarráðs mun undirrituð leggja fram kæru til innanríkisráðuneytisins þar sem ekki verður annað séð en bæjarstjóri brjóti lög með þögn sinni og aðgerðarleysis,“ segir í bókuninni.