Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Rand Paul er sagður hóta því að tefja í næstu viku útnefningu Janet Yellen sem næsta aðalseðlabankastjóra bandaríska seðlabankans. Með hótuninni er hann sagður þrýsta á um að frumvarp hans um breytingar endurskoðun uppgjörs bandaríska seðlabankans nái fram að ganga.

Gangi allt eftir mun Yellen taka við bankastjórastólnum af Ben Bernanke eftir áramótin.

Bandaríska fréttastöðin CNBC hefur hins vegar eftir öldungadeildarþingmanni úr röðum demókrata að hótun Paul vegi ekki þungt enda þurfi hann að fá stuðning 40 öldungadeildarþingmanna til að stöðva útnefninguna.

Fjallað er ítarlega um Janet Yellen í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .