Dave Prentis formaður Unison, stærsta verkalýðsfélags opinberra starfsmanna í Bretlandi, segir að falli stjórnvöld ekki frá fyrirhugðum breytingum á eftirlaunakerfinu muni mestu verkföll frá 1926 skella á.  Þetta kemur fram í frétt Guardian.

Unison er með 1,4 milljón félagsmanna. Félagið hyggst stöðva allar opinbera þjónustu komi breytingarnar til framkvæmda.  Prentis segir að verkalýðsfélögin muni hafa sigur í báráttu sinni, ólíkt því þegar námumenn fóru í verkföll árin 1984 og 1985 þegar Margaret Thatcher þáverandi forsætisráðherra hafði betur.

Ríkisstjórnin lagði fram hugmyndir sínar um breytingar á eftirlaunakerfinu í gær sem fela í sér að eftirlaunaaldurinn hækkar í 66 ár, greiðslur í lífeyrissjóði hækki um 3,2% og greitt verði í samræmi við meðallaun í stað þeirra launa sem eftirlaunaþegi hafði þegar hann lét af störfum.

Ráðherrar segja að þar með sé verið að jafna eftirlaunaréttindi opinberrra starfsmanna og starfsmanna í einkageiranum.