Hótel Búðir við Snæfellsnes er á lista yfir tíu bestu afskekktu hótelin í heiminum á vef Financial Times. Þótt hótelunum sé ekki raðað í sætaröð í umfjölluninni þá er hótelið þar efst á lista. Í umfjölluninni segir að hótelið sé staðsett nálægt Atlantshafinu, með útsýni yfir Snæfellsjökul og að á sumarkvöldi getur staðurinn verið súrrealískur.

Þá er greint frá sögu hótelsins en það var opnað árið 1947 en brann árið 2001. Síðan var það opnað árið 2003 með 38 svefnherbergjum en blaðamaður Financial Times segir herbergi 28 vera í sérstöku uppáhaldi. Þar sé að finna frábært útsýni yfir hafið og möguleika á að sjá norðurljósin.

Á meðal annarra hótela á listanum eru hótel í Sviss, Mongólíu, Páskaeyjum og í Botsvana svo nokkur séu nefnd.