Hótel Flúðir hefur verið auglýst til á sölu á 500 milljónir króna á fasteignavef mbl.is . Margrét Runólfsdóttir, eigandi Hótel Flúða, segir í samtali við Viðskiptablaðið að breyttar aðstæður í persónulega lífinu sínu liggi að baki ákvörðuninni en eiginmaður hennar Guðmundur Sigurhansson féll frá fyrir einu og hálfu ári. Þau keyptu hótelið árið 2003 og höfðu starfað á hótelinu tvö ár þar áður. Margrét segir að nú sé kominn tími fyrir yngra fólk að taka við rekstrinum.

Á hótelinu, sem var byggt árið 1970, eru 32 herbergi , veitingasalur og fundarherbergi ásamt garði í miðju hótelsins með heitum pottum og stórri verönd. Fasteignin er 2.701 fermetri að stærð. Hótelið er með fullt vínveitingaleyfi ásamt gistileyfi.

Hótel Flúðir er hluti af Icelandair Hotels keðjunni, sem var keypt af Berjaya Land Berhad á síðasta ári. Margrét segir að það verði undir hótelkeðjunni komið að ákveða hvort Hótel Flúðir verði áfram undir þeim hatti í kjölfar eigendaskipta.

Reksturinn gekk vel í sumar og herbergjanýting hefur verið mjög góð á síðustu mánuðum að sögn Margrétar, þó starfsemin sé að að vísu ekki kominn á sama stað og fyrir kórónuveiruna. „Sumarið er alltaf gott hjá okkur, það er alveg sama hvaða á gengur,“ segir Margrét.

Hótelið opnaði aftur í maí eftir að hafa verið lokað tímabundið í október 2020 síðastliðnum vegna faraldursins. „Það var lítið um að vera síðasta haust eftir að Íslendingar fóru aftur að vinna. Það var ekkert hægt að eiga við Covid-ástandið og öll samkomubönnin," segir Margrét og bætir við að hótelinu verði ekki lokað aftur í vetur.

Hótel Flúðir
Hótel Flúðir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hótelgarðurinn á Hótel Flúðum.