Fyrsta Radisson RED hótelið á Norðurlöndum verður reist á horni Skúlagötu og Vitastígs, en um er að vörumerki sem á að höfða til þúsaldarkynslóðarinnar svokölluðu með óformlegri þjónustu og fjölbreyttu rými að því er Fréttablaðið greinir frá.

Staðsetningin er í sömu lengju og Kex hostel sem líkt og vænta má um þetta hótel, hefur verið vinsælt hjá hipsterum og öðrum samfélagshópum sem einkennt hafa þúsaldarkynslóðina.

Tony Kettle frá Bretlandi er arkitekt verkefnisins, en hann er m.a. þekktur fyrir að teikna Falkirk skipalyftuna í Skotlandi sem er þekkt kennileiti þar í landi, en einnig hannaði hann höfuðstöðvar ríkisolíufélags Rússlands, Gazprom, Lakhta turninn em er 426 metra hár.

Segir Kettle hönnunina verða innblásna af náttúru Íslands sem og arkitektúr kennileita í borginni eins og Hallgrímskirkju og Hörpu.

„Ég varð fyrir sterkum áhrifum af heimsókn minni til landsins enda er Ísland ótrúlega fallegt land,“ hefur blaðið eftir Kettle. „Hönnun hótelsins dregur að einhverju leyti innblástur frá þessum tveimur byggingum og náttúrunni. Markmið okkar er að skapa nýtt og spennandi kennileiti fyrir Reykjavík og spennandi áfangastað fyrir íbúa höfuðborgarinnar og ferðamenn.“

Fyrstu áform um byggingu hótels á þessum stað voru kynnt á fyrri hluta árs 2018, og ætlunin að hefja reksturinn á þessu ári, en vegna krafna í deiliskipulagi töfðust þær áætlanir.