*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 11. júlí 2017 08:39

Hótel hafa áhyggjur af vetrinum

Hótelstjórar segja ferðaheildsala afbóka ferðir vegna hás verðs hér á landi, og beina ferðamönnum til Írlands og Noregs.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Afbókanir ferðaheildsala er birtingarmynd sterks gengis íslensku krónunnar að mati Steinþór Jónssonar, hótelstjóra á Hótel Keflavík.

„Við erum farin að sjá afbókanir í vetur. Nú í fyrradag var til dæmis ferðaheildsali að afbóka 40 hópa sem áttu að vera í vetur,“ segir Steinþór í Morgunblaðinu í dag. „Það var hætt við allar ferðirnar eins og þær leggja sig. Önnur hótel sem voru með þessa seríu hljóta að fá þessar afbókanir líka.

Þetta er einn aðili af mörgum sem eru að afbóka í heilu lagi. Hann er hættur að selja ferðir til Íslands út af verðinu. Ferðaheildsalar munu beina ferðamönnum til ódýrari landa, t.d. Noregs og Írlands.“

Framkvæmdastjóri CenterHotels keðjunnar, Kristófer Oliversson, hefur áhyggjur af rekstrinum í vetur. „Maður óttast að það verði á brattann að sækja. Við höfum reynt að hækka verð í evrum,“ segir Kristófer. „Þrátt fyrir það höfum við engan veginn náð að halda í við styrkingu krónunnar og verðið hefur lækkað í krónum talið.“