Fyrirhugað er að reisa viðbyggingu við Hótel Hamar í Borgarnesi en hótelið hefur verið starfandi við golfvöllinn að Hamri síðan um mitt sumar 2005. Í frétt á vef héraðsfréttablaðsins Skessuhorns kemur fram að ætlunin er að  auka fjölda gistirýma um ríflega helming, úr 30 herbergjum í 65. Að auki á að bæta við fundarsal og veitingasal sem staðsettur verður í glerhúsi á efstu hæð hinnar nýju þriggja hæða byggingar.

Nýbyggingin mun rísa við austurenda hótelsins og verður tengd núverandi húsnæði með glerbyggingu. Í Skessuhorninu kemur fram að byggingin verður þannig uppbyggð að séð frá bílastæðum mun hún einungis líta út fyrir að vera tveggja hæða en vegna nokkurs halla á lóðinni mun neðsta hæðin á suðurhliðinni í raun bæta við einni hæð neðan við hinar. Byggt verður í þrepum upp á við frá suðri. Í nýbyggingunni munu herbergin verða sunnan megin en þjónusta og þvottahús norðan megin.

Byggingin verður boðin út á haustdögum og er áætlað að verkið verði í höndum alverktaka.