Í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu FM 99,4 sem hefst klukkan 16, verður rætt um framtíð og forsendur fyrir rekstri sprotafyrirtækja á Íslandi. Á föstudaginn verður haldið Sprotaþing þar sem menn ætla að ræða þessi mikilvægu mál, en hagsmunaaðilar úr íslensku atvinnulífi, stjórnmálamenn og stjórnendur sprotafyrirtækja munu koma þar saman og bera saman bækur sínar. Í þættinum verður meðal annars rætt við Davíð Lúðvíksson hjá Samtökum iðnaðarins og Baldur Þorgilsson frá Kine.

Hótel Holt er orðið fertugt og af því tilefni lítur hótelstjóri þess, Eiríkur Ingi Friðgeirsson, í heimsókn. Eiríkur hefur starfað á Hótel Holti í 20 ár, en hann er með rekstur hótelsins á leigu ásamt Sigmari Ingólfssyni veitingastjóra. Við ræðum við Eirík um reksturinn og þátttöku í Food and fun matarhátíðinni, en Steinn Logi Björnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, segir okkur nánar frá hátíðinni.

Sleginn verður botn í þáttinn með umfjöllun um SVFR. Nýr framkvæmdastjóri félagsins lítur í heimsókn, Páll Þór Ármann, og með honum í för verður Eiríkur St. Eiríksson, stjórnarmaður í SVFR. Rætt verður um nýtt eignarhaldsfélag SVFR, aðkomu SVFR að veiðikortinu og spáð í tímabilið framundan, sölu veiðileyfa og verðþróun á markaðnum.