Hótel Hvolsvöllur er nú í mikilli uppbyggingu og verið er að stækka hótelið um 26 herbergi á tveim hæðum á mettíma. Óli Jón Ólafsson hótelstjóri segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að mikill hraði sé á þessum framkvæmdum, en vinna hófst við að reisa stækkunina 7. maí og verður stækkunin tekin í notkun 25. júní.

Verður hótelið þá komið með 87 herbergi. Einnig er ætlunin að byggja aðra nýja álmu við hótelið og rífa þá um leið eldra gistirými eftir stækkun. Á bak við hótelið verður þá til skjólgóður garður, þar sem ætlunin er að setja upp aðstöðu fyrir gesti með heitum pottum og slíku.

Gengið hefur á ýmsu í gegnum tíðina í rekstri Hótels Hvolsvallar, en nú er verið að gera stórátak í rekstrinum. Sigurður Ingi Ingimarsson fjárfestir keypti hótelið í fyrra og tók við því 1. júní. Réð hann Óli Jón sem hótelstjóra og hóf hann störf sama dag. Strax var hafist handa við fjölþættar endurbætur á húsnæðinu með stækkun hótelsins í huga.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.