Í dag er formleg opnun Base hótels á Reykjanesi. Skúli Mogensen er eigandi hótelsins. Nafnið vísar í tímabilið er þegar bandaríski herinn hafði aðsetur á svæðinu.

Útlit hótelsins, sem er málað í felulitum, heldur þeirri sögu í heiðri, kemur fram í tilkynningu um opnunina. Hótelið hóf starfsemi í júní og hafa viðtökur verið vonum framar.

Skúli Mogensen segir í tilkynningunni að það sé ánægjulegt hve góðar viðtökurnar hafa verið. Telur hann að hótelið muni efla Reykjanessvæðið enn fremur.

Einnig er tekið fram að staðsetningin henti mjög vel fyrir ferðamenn sem komi til landsins. Það henti fyrir þá sem vilji einungis staldra stutt við á Íslandi. Hótelið er einnig nálægt vinsælum ferðamannastöðum á Reykjanesi á borð við Bláa Lónið og Brúnna á milli heimsálfa.