Hótel Saga ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í héraði síðasta miðvikudag. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Félagið rak samnefnt hótel sem í daglegu tali var oft kallað Bændahöllin. Þegar faraldurinn skall á nýtti félagið sér úrræði stjórnvalda til að halda rekstrinum gangandi en í nóvember á síðasta ári var skellt í lás.

Félagið fékk að auki heimild til að fara í greiðsluskjól en það gerðist síðasta sumar. Frestsdagur við skiptin er enda 29. júní 2020 í ljósi þess.

Viðræður höfðu staðið yfir við fjárfesta um að kaupa hótelið og var stefnt að því að ljúka þeim í sumar. Einnig hafði verið rætt við Háskóla Íslands um að kaupa húsnæðið og starfrækja þar stúdentagarða.

Lögmaðurinn Áslaug Árnadóttir er skiptastjóri þrotabúsins og ber að senda henni kröfulýsingar, á skrifstofu Landslaga í Borgartúni 26, fyrir 29. nóvember 2021. Skiptafundur verður síðan haldinn mánudaginn 13. desember.