*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 27. september 2021 18:49

Hótel Saga gjaldþrota

Félagið hafði verið í greiðsluskjóli frá síðasta sumri en það dugði ekki til að það myndi lifa af.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Hótel Saga ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í héraði síðasta miðvikudag. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. 

Félagið rak samnefnt hótel sem í daglegu tali var oft kallað Bændahöllin. Þegar faraldurinn skall á nýtti félagið sér úrræði stjórnvalda til að halda rekstrinum gangandi en í nóvember á síðasta ári var skellt í lás. 

Félagið fékk að auki heimild til að fara í greiðsluskjól en það gerðist síðasta sumar. Frestsdagur við skiptin er enda 29. júní 2020 í ljósi þess. 

Viðræður höfðu staðið yfir við fjárfesta um að kaupa hótelið og var stefnt að því að ljúka þeim í sumar. Einnig hafði verið rætt við Háskóla Íslands um að kaupa húsnæðið og starfrækja þar stúdentagarða.

Lögmaðurinn Áslaug Árnadóttir er skiptastjóri þrotabúsins og ber að senda henni kröfulýsingar, á skrifstofu Landslaga í Borgartúni 26, fyrir 29. nóvember 2021. Skiptafundur verður síðan haldinn mánudaginn 13. desember.