Hótel Saga og Bændahöllin ehf. hafa sótt um greiðsluskjól vegna tekjufalls. Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Hótel sögu, segir að tekjur hótelsins í sumar séu innan um 10% samanborið við sumarið 2019.

Greiðsluskjólsbeiðnirnar byggja á nýsamþykktum lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Með nauðasamningi má kveða um breytingu á greiðsluskilmálum samningsveðkrafna, þar á meðal að lengja lánstíma, fresta gjalddaga hluta skuldarinnar eða henni allri í allt að þrjú ár.

Til að eiga kost á úrræðinu þarf félag að hafa orðið fyrir að minnsta kosti 75% tekjufalli á tilteknu tímabili og fyrirséð sé að handbært reiðufé og kröfur á hendur öðrum nái ekki að dekka áætlaðan rekstrarkostnað og afborganir skulda næstu tveggja mánaða.

„Þetta gefur okkur þriggja mánaða svigrúm til þess að gera samkomulag við lánardrottna og vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins,“ segir Ingibjörg.

Morgunblaðið greindi frá því í lok maí að Bændasamtökin séu að leita að nýjum hluthöfum að rekstri hótelsins. Ingibjörg segir nokkra áhugasama aðila horfa til hótelsins en að áherslan núna sé að halda súrefni í fyrirtækinu.

„Ég geri ráð fyrir því að við þurfum að borga með hótelrekstri næstu mánuðina og það þarf nýtt hlutafé svo það gangi upp. Greiðsluskjólið gefur okkur smá svigrúm til þess að leita að nýjum leiðum.“

„Bókunarstaðan hjá okkur núna í júní var 12% og stefnir í svipað hlutfall í júlí. Á sama tíma í fyrra vorum við með 90% herbergjanýtingu og meðalverðin eru helmingi lægri en þau voru í fyrra. Það gefur augaleið að við erum að fá innan um 10% tekjur miðað við síðasta sumar,“ segir Ingibjörg.