„Þetta var ekki hugsað sem fjárfesting í upphafi. Við lánuðum fyrri eigendum fjármagn sem átti að greiðast til baka. En það gekk ekki eftir,“ segir Adolf Guðmundsson, formaður stjórnar FF 800, eiganda Hótel Selfoss. Hann tók vð eignarhaldi hótelsins í fyrra og vinnur nú að fjárhagslegri endurskipulagningu hótelsins í samstarfi við Íslandsbanka. Adolf vonar það besta.

Uppgjör FF 800 fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir. Árið 2010 var rúmlega 55 milljóna króna tap á rekstri hótelsins og bættist það við tæplega 90 milljóna króna tap árið á undan. Skuldir námu á sama tíma 999,2 milljónum króna. Ofan á slæma stöðu hótelsins var eigið fé FF 800 neikvætt um rúmar 250 milljónir í lok árs 2010.

„Við erum eins og önnur landsbyggðarhótel að berjast við það að auka nýtinguna. Nýtingin hefur mest verið yfir háannatímann en ekki góð utan hans,“ segir Adolf. Að því viðbættu renna óhagstæðir langtímasamningar út á næstunni. „Miðað við allt verðum við á áætlun á þessu ári,“ segir hann.

Fram kom í gær að liður í fjárhagslegri endurskipulagninu hótelsins eru kaup sveitarfélagsins Árborgar á menningarsal í kjallara hótelsins. Salurinn er rúmir 1.300 fermetrar að flatarmáli. Gert er ráð fyrir leiksviði með sætum fyrir um 350 manns og búningsherbergum og sturtum undir honum. Salurinn hefur verið fokheldur frá því hótelið var tekið í notkun árið 1984.