*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 11. júlí 2019 15:22

Hótel sýknað af kröfu verktaka

Cambridge Plaza Hotel Company ehf. var sýknað af kröfu ÞG verks um viðurkenningu á bótum fyrir missi hagnaðar.

Ritstjórn
Frá uppbyggingu við Austurbakka.
Haraldur Guðjónsson

Cambridge Plaza Hotel Company ehf. var í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrradag sýknað af kröfu ÞG verktaka ehf. um viðurkenningu á rétti til skaðabóta fyrir missi hagnaðar. Verktakafélagið taldi sig hlunnfarið í útboði um reit 5A við Austurbakka.

Í febrúar 2017 var óskaði Mannvit, fyrir hönd Cambridge Plaza, eftir tilboðum í burðarvirki fyrir umræddan reit en um er að ræða hótel sem byggja á milli Hörpu og nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Tilboð barst frá fjórum verktökum en þar á meðal voru Ístak og ÞG verktakar.

Cambrigde Plaza ákvað að hafna öllum tilboðum og efna til nýts útboðs þar sem fyrri tilboð hefðu verið metin óaðgengileg, meðal annars með tilliti til upphæða tilboðanna. Breytt útboðslýsing var lögð fram en þó tekið fram að upplýsingar úr þeirri eldri giltu einnig að því marki sem þeim hefði ekki verið breytt. Tekið var fram að teldu bjóðendur sig geta stytt verktíma umfram lok nóvember 2018 var þess óskað að breytt lokadagsetning kæmi fram í tilboðinu.

Opnun tilboða fór fram í apríl 2017 og höfðu borist þrjú tilboð í verkið. Bauð ÞG verktakar 2,4 milljarða í verkið og tæpum átján milljónum betur. Ístak bauð á móti 2,4 milljarða og 26 milljónir. Ákvað Cambridge Plaza að taka tilboði Ístaks þar sem félagið bauð upp á mánuði styttri framkvæmdatíma.

Verkkaupa að meta hagstæðasta tilboð

Krafa ÞG verktaka var byggð á því að hótelfélaginu hefði borið að taka tilboði félagsins þar sem um ódýrasta tilboðið hefði verið að ræða. Í annan stað var á því byggt að hið samþykkta tilboð hefði ekki verið gilt þar sem efni þess hefði ekki verið lesið upp á fundi þar sem tilboðin voru opnuð.

Dómurinn hafnaði fyrri málsástæðunni þar sem óumdeilt var að umrætt tilboð Ístaks barst og var þess getið í fundargerð er tilboðin voru opnuð. Umrædd fundargerð var undirrituð af fulltrúa ÞG verktaka. Dómurinn féllst á að annmarkar hefðu verið á útboðinu þar sem fjárhæð tilboðsins var ekki lesin upp en hann gæti ekki valdið því að tilboðið yrði metið ógilt.

Hvað hina málsástæðuna varðar taldi dómurinn ósannað að ÞG verktakar hefðu átt hagstæðasta tilboðið í umrætt verk þó það hefði verið átta milljónum lægra en tilboð Ístaks. Tilgreint hafi verið í útboðsgögnum að litið yrði til þess ef verklok yrðu fyrr en útboðslýsing hvað á um. Það væri í höndum verkkaupa að meta hvaða tilboð hann teldi hagstæðast.

„Að mati dómsins hefur [ÞG verktakar] ekki sýnt fram á að [Cambridge Plaza] hafi ekki metið tilboðin á grundvelli útboðsskilmála eða að framangreind útboðsgögn hafi með réttu gefið honum tilefni til að  álykta að styttri verktími hefði ekki áhrif á mat á hagkvæmni tilboða. Þá verður ekki séð, í ljósi þess hve lítill munur var á fjárhæðum tilboðs [ÞG verktaka] og þess sem [Cambridge Plaza] mat hagstæðast, að matið á áhrifum styttri verktíma hafi verið ómálefnalegt eða í ósamræmi við raunverulegt hagræði af því,“ segir í dómnum.

Í ljósi úrslita málsins var ÞG verktakar dæmt til að greiða hótelinu 1,2 milljónir í málskostnað og Mannviti, sem stefnt var til réttargæslu, 800 þúsund.