„Við erum að byggja við hótelið og ætlum að stækka það um helming. Framkvæmdar eru hafnar og áætlað er að klára um ágúst eða september,“ segir Magnús Bragason, hótelstjóri á Hótel Vestmanneyjum.

Magnús segir að stefnt sé að því að taka nýju viðbygginguna í notkun árið 2014. Með stækkuninni verða herbergin tæplega fimmtíu í allt: „Hótelið okkar er í dag stærsta hótelið í Eyjum. Það er mjög góð samvinna á milli gististaða hér í Eyjum en það hefur vantað stærri hótel til að taka við stærri hópum eins og starfsmannafélögum og vinahópum. Eftirspurnin eftir gistingu handa stórum hópum er mikil.“

Magnús segir mikið um að vera í Eyjum og mannlífið hafi breyst eftir komu Landeyjarhafnar: „Það eru komnir fullt af góðum veitingastöðum og margt hægt að gera hér á kvöldin. Það er mikil gróska í leikfélaginu sem er til dæmis að sýna Grease núna og það er uppselt á hverja sýningu, kvöld eftir kvöld.“

Og hvernig ætli gangi að bóka fyrir Verslunarmannahelgina? „Hjá okkur er allt fullt og var allt uppbókað síðan í fyrra en það breytist þegar við fáum fleiri herbergi,“ segir Magnús.