Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Mógilsár við Kollafjörð að því er Morgunblaðið greinir frá en það er svæðið við Esjurætur. Samhliða því voru hugmyndir um nýjan veitingastað og hótel við Esjustofu.

Í samtali við Morgunblaðið segir Pjetur Árnason, einn eigenda Esjustofu, að fyrirtækið stæði fyrir áformunum. Hann segir þarfir viðskiptavina vera þær að opið verði allt árið, að salerni sé á staðnum, sturtur og heitir pottar og möguleiki á gistingu. Til þess að unnt sé að mæta þeim þörfum þufi að reisa varanlega byggingu en núverandi húsnæði var flutt á staðinn.

Í greinargerð með tillögunni segir að tryggja skuli að byggingin falli sem best að landinu og að þær skuli vera 1-2 hæðir auk kjallara undir hluta þeirra. Að þjónustan skuli ekki vera einskorðuð við hótelgesti heldur opin og aðgengileg öllum almenningi. Heimilt byggingarmagn verður í heildina 3.000 fermetrar.