Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir aðlögun hótelgeirans að breyttum aðstæðum þegar hafna, meðal annars í formi minni framkvæmda. „Það sem við höfum verið að sjá undanfarin ár er að þegar hægja tók á sprengingunni hefur verið dregið úr verkefnum, og sum sem þegar voru í bígerð jafnvel sett á bið eða hætt alfarið við þau.“

„Þau verkefni sem hafa farið í gang hafa þá frekar verið líkleg til að lifa af uppbyggingatímabilið,“ en horft sé töluvert langt fram í tímann við ákvarðanir um fjárfestingar í hótelbyggingum. „Uppbygging í hótelrekstri almennt hlýtur alltaf að líta til lengri tíma fremur en skemri. Þegar menn horfa á svona fjárfestingar eru þeir ekki bara að horfa á hvernig markaðurinn verður á næsta ári, þótt auðvitað hafi þetta áhrif. Þegar það koma svona óvæntar sveiflur ofan í áætlanir þá ýkja þær sveiflurnar á markaðnum og í tekjustofnunum í leiðinni.“

Jóhannes segist þó vissulega þekkja til nokkurra hótela sem „eiga flókna daga framundan“ eins og hann kemst að orði. „Það eru vissulega dæmi um það. Þá ekki beinlínis vegna fækkunar ferðamanna heldur bara þessa samspils: sveifla í tekjum á móti föstum kostnaði. Þetta verður ekki auðveldur vetur fyrir hótelhaldara á höfuðborgarsvæðinu, það er langt því frá.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .