*

laugardagur, 23. janúar 2021
Innlent 2. janúar 2020 14:39

Hótelgisting 16% ódýrari en fyrir ári

Verð á gistingu lækkaði milli ára í desember í Reykjavík. Meðalverðið nærri 20 evrum lægra 2019 en árið 2018.

Ritstjórn
Fosshótel er eitt fjölmargra hótela í Reykjavík.
Haraldur Guðjónsson

Í nýliðnum desember var verð á gistingu á hótelum í Reykjavík 15,8% lægra, mælt í evrum, en á sama mánuði fyrir ári síðan, og hefur það þar með lækkað 16 mánuði í röð, miðað við hlaupandi 12 mánaða meðalverð. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Ef horft er á árið 2019 í heildina var það 12,5% lægra en árið áður, eða 140,1 evra að meðaltali, miðað við 160 evrur, og munar því rétt tæplega 20 evrum milli ára. Mikill munur sést á verðlækkun síðustu mánuði frá því fyrir og eftir fall Wow air, en fyrir gjaldþrot flugfélagsins, þ.e. frá janúar til apríl, nam lækkunin á bilinu 4,1 til 9,1%.

Wow air fór í gjaldþrot í marslok í fyrra, en frá og með maímánuði til áramóta hefur verðlækkunin numið 12,2 til 17,2%, í hvoru tveggja tilfelli mælt í evrum. En í krónum nam verðlækkunin 3,3% milli ára vegna veikingar krónunnar.

Meiri verðsveifla í Reykjavík gefur betri nýtingu

Herbergjanýtingin er nokkuð lægri, en öfugt við höfuðborgir hinna Norðurlandanna, þar sem einnig hefur verið verðlækkun hótelgistingar, er árstíðarmunur á verðum herbergjanna meiri hér á landi og þar með betri herbergjanýting.

Þannig er minnsta árstíðarsveiflan í herbergjanýtingu í þessum samanburði en mesta árstíðarsveiflan í verðum.  Þannig var herbergjanýtingin í hótelum í Reykjavík að meðaltali 82,9% í júní, júlí og ágúst á síðasta ári en
74,5% yfir aðra mánuði ársins.

Nýtingin var því 11,3% meiri yfir sumarmánuðina en aðra mánuði ársins, meðan nýtingin var 18% hærri yfir sumarmánuðina þar árstíðarsveiflan var mest, það er í Kaupmannahöfn.

Verðsveiflan milli sumarmánaða og vetrarmánuði nam hins vegar 42,7% í hótelgistingu í Reykjavík, eða úr 126,6 evrum í 180,6 evrur, meðan hlutfallslegi munurinn var frá því að vera mestur í Kaupmannahöfn með 21% niður í 1%í Stokkhólmi.