Samtök ferðaþjónustunnar hafa birt samantekt á niðurstöðum úr tekjukönnun SAF og Hotelbenchmark fyrir árið 2007

Samkvæmt könnuninni hefur hótelherbergjum í Reykjavík fjölgað úr 1586 í 1726 herbergi.  Fjölgunin hefur hins vegar bara verið á fjögurra stjörnu hótelunum.  Þar fjölgaði herbergjum úr 865 árið 2006 í 1004 herbergi árið 2007.  Herbergjafjöldi á þriggja stjörnu hótelunum er hins vegar sá sami milli ára eða 683 herbergi.  Á landsbyggðinni hefur hótelherbergjum fjölgað úr 338 í 350 milli ára.

Hótelnýting í Reykjavík hefur dregist lítillega saman og raunsamdráttur hefur orðið á 3 stjörnu hótelunum um 1.7%, því herbergjafjöldinn hefur staðið í stað.  Hótelnýting á fjögurra stjörnu hótelunum hefur dregist saman um 3,4% milli ára en herbergjunum á sama tíma fjölgað um 139 herbergi.

Verðið á hótelherbergjum í Reykjavík hefur hækkað um 8,5% milli ára og tekjur fyrir framboðið herbergi hækkað um 5,7%.

Á landsbyggðinni hefur verðið hækkað um 18,3% og tekjur fyrir framboðið herbergi aukist um 23,5%.

Meðalverð fyrir hótelherbergi í Reykjavík var 9.276 krónur fyrir árið 2006 en fyrir árið 2007 var meðalverðið orðið 10.068.  Meðalverð fyrir hótelherbergi á landsbyggðinni var 7.866 krónur árið 2006 en meðalverðið var 9.306 krónur á árinu 2007.