Ákveðið hefur verið að Minjastofnun dragi til baka tillögu sína um að mennta- og menningarmálaráðherra friðlýsi hluta af Landssímareitnum þar sem fyrirhugað er að byggja hótel, veitinga- og kaffihús.

Lindarvatn ehf., sem er eigandi fasteigna á reitnum, mun breyta uppdráttum þannig að inngangur sem fyrirhugaður var gegnt Víkurgarði verði færður norðar. Er það í samræmi við óskir Minjastofnunar Íslands.

Af hálfu Lindarvatns er því fagnað að tillaga um friðlýsingu sé dregin til baka en með því er tryggt að fyrirhuguð byggingaráform raskist ekki á sama tíma og komið er til móts við sjónarmið þeirra sem vilja að sögu og menningu Víkurgarðs verði gert hærra undir höfði að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þá vonast Lindarvatn til þess að fyrirhuguð hugmyndasamkeppni um Víkurgarð verði til þess að gera hann aðlaðandi og vistlegan stað í hjarta Reykjavíkur, öllum borgarbúum og gestum þeirra til heilla. Félagið segist jafnfamt að það muni leitast við að eiga gott samstarf við Minjastofnun um framhald framkvæmda.