Fasteignafélagið Reitir skilaði 2.065 milljóna króna rekstrarhagnaði fyrir matsbreytingu á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 1.593 milljónir árið áður og jókst því um nærri 30% á milli ára. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun félagsins sem byggir á drögum að uppgjöri þriðja fjórðungs.

Helsta ástæða bætts rekstrarhagnaðar er sögð afkoma af hóteleignum félagsins. „Sterkur ferðamannastraumur á síðari hluta sumarsins skilaði meiri tekjum en félagið hafði gert ráð fyrir.“

Leigutekjur Reita jukust um 15% á milli ára og námu 3,1 milljarði króna. Hreinar leigutekjur jukust einnig um 28% og voru um 2,2 milljarðar. Leigutekjur og rekstrarhagnaður Reita var hærri á þriðja ársfjórðungi heldur en á sama tímabili árið 2019. Hrein fjármagnsgjöld voru 1.435 milljónir á fjórðungnum en á sama tíma í fyrra voru þau 1.696 milljónir.

Fasteignafélagið tekur fram að afkoma félagsins geti tekið breytingum fram að endanlegu uppgjöri sem verður birt 15. nóvember.