Átta hótel í eigu Marriott-keðjunnar í Bandaríkjunum bjóða gestum sínum nú upp á að horfa á Netflix eða Hulu streymiþjónusturnar.

Fram að þessu hafa hótelgestir aðeins getað horft á hefðbundnar sjónvarpsstöðvar inni á hótelherbergjum eða leigt sér bíómyndir, sem eru hluti af afþreyingarþjónustu hótela (pay-per-view). Oftar en en ekki hafa aðeins nokkurra ára gamlar myndir verið í boði gegn frekar háu gjaldi.

Til reynslu hefur Marriott-keðjan ákveðið að bjóða gestum á nokkrum hótelum sínum að nota streymiþjónustur. Hingað til hafa gestir svo sem getað horft á Netflix í tölvunum sínum en oft hefur það reynst örðugt vegna lélegs netsambands inni á hótelherbergjum. Nýja þjónustan er einfaldlega í sjónvarpinu og þurfa gestir því ekki að streyma efni í gegnum sínar eigin tölvur.

Aðgangurinn að streymiþjónustu Netflix, Hulu og Pandora verður þó ekki ókeypis, jafnvel þó gestirnir séu sjálfir áskrifendur að þjónustunni. Eftir á að útfæra nákvæmlega hversu mikið hótel-keðjan mun rukka. Líklegt er að gjaldið verði innifalið í gjaldi sem gestir greiða fyrir internet-aðgang en einnig er hugsanlegt að innheimt verði sérstaklega fyrir þessa þjónustu.