*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 26. október 2013 07:30

Hótuðu að eitra Pipp-súkkulaði með bremsuvökva

Saksóknari krefst tíu til tólf mánaða fangelsisdóma yfir mönnum sem reyndu að kúga fé út úr Nóa Síríusi.

Ritstjórn
Tveir ungir menn eru ákærðir fyrir að reyna að kúga Nóa Siríus sælgætisframleiðanda.
Haraldur Guðjónsson

Tveir ungir menn reyndu að kúga tíu milljónir út úr sælgætisfyrirtækinu Nóa Siríusi með því að setja bréf inn um lúguna heima hjá Finni Geirssyni, forstjóra Nóa Siríusar, þar sem hann var krafinn um fjárhæðina. Að öðrum kosti yrði eitruðum súkkulaðistykkjum komið í umferð. Með bréfinu fylgdu tvö Pipp-súkkulaðistykki sem bremsuvökva hafði verið sprautað í.

Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag en aðalmeðferð málsins fór fram í héraðsdómi í gær. Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, krafðist tíu til tólf mánaða fangelsisdóma yfir mönnunum. Fyrir dómi sagði annar mannanna að Sigurður Ingi Þórðarson, einnig þekktur sem Siggi hakkari í tengslum við málefni Wikileaks, hafi haft veg og vanda af framkvæmdinni. Sigurður Ingi er ekki ákærður í málinu en engar sannannir lágu fyrir aðild hans, segir í umfjöllun Fréttablaðsins.

Mennirnir voru handteknir í byrjun síðasta árs þegar þeir töldu sig vera að sækja pakka með milljónunum fyrir utan Hús verslunarinnar. Verjendur þeirra sögðu fyrir dómi að tilraun mannanna hafi verið kjánaleg og að hvorki dómgreind né skynsemi hafi komið við sögu. Verjendurnir telja skilorðsbundna refsingu eðlilegasta, enda jafnist brotin á við það þegar krakkar hringi í 112. 

Stikkorð: Nói Siríus