Í skoðun var hjá stjórnendum Landsbankans undir lok árs 1993 að setja Samskip í þrot. Landsbankinn hafði þá nokkru áður gengið að eignum Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) og eignast meirihluta í Samskipum. Bankinn vildi ekki eiga skipaflutningafélag, allra síst fyrirtæki í miklum taprekstri. Þegar þetta var höfðu fjárfestingar fyrirtækisins reynst misheppnaðar auk þess sem tap var á siglingum.

Ólafur Ólafsson, sem hafði verið ráðinn til Samskipa til að koma rekstrinum á réttan kjöl eftir yfirtöku bankans á fyrirtækinu, var kallaður á fund bankastjóra Landsbankans um jólin 1992 og honum gerð grein fyrir stöðunni. Á fundinum voru Sverrir Hermannsson, sem þá var einn bankastjóra Landsbankans ásamt þeim Halldóri Guðbjarnasyni og Björgvini Vilmundarsyni, sem jafnframt var formaður bankastjórnar. Á fundinum var líka starfsmaður Landsbankans sem hafði komið að hagræðingu Samskipa.

„Þetta hvíldi mjög á herðum Sverris. Honum var mjög umhugað um að hafa alvöru samkeppni á flutningamarkaði. Hann sá ekki annan valkost en Samskip á móti Eimskipi," segir Ólafur. Á fundinum sagði Björgvin Ólafi sláandi tíðindi: Við getum ekki staðið að því að vera eigendur félagsins lengur. Ef þið verðið ekki búnir að finna kaupanda að Samskipum fyrir lok febrúar þá munum við loka félaginu.

Árið 1994 komu nýir hluthafar inn í Samskip. Þar á meðal voru Fóðurblandan, Samherji, Hagkaup, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, þýska skipafyrirtækið Bruno Bischoff Rederei , VÍS, Samvinnulífeyrissjóðurinn og stjórnendur Samskipa.

Sérstök hátíðarútgáfa af Viðskiptablaðinu kemur út í dag í tilefni af 20 ára afmæli blaðsins. Í blaðinu eru viðtöl við áhrifafólk í stjórnmálum og viðskiptum árið 1994 og áhrifafólk í dag.