House of Fraser opnaði nýja verslun í stærstu verslunarmiðstöð Evrópu, Westfield verslunarmiðstöðinni í London í dag.

Í tilkynningu frá Baugi Group segir að verslunin sé fjórða verslun House of Fraser síðan Highland Group Holdings eignaðist félagið í nóvember 2006. Meðal þeirra séu verslanirnar í High Wycombe í Belfast á Írlandi og í Cabot Cirkus í Bristol.

„Síðan nýir eigendur tóku við hefur stjórn fyrirtækisins mótað langtímastefnu, sem felur í sér fjárfestingar í verslunum og vörumerkjum. Einnig er lögð áhersla á betri þjónustu við viðskiptavininn og rekstrarhagræðingu,“ segir í tilkynningunni.

House of Fraser mun á næstunni halda áfram að gefa viðskiptavinum sínum kost á fleiri vörumerkjum og breiðara vöruúrvali. Á meðal nýrra merkja eru Anya Hindmarch, Episode, Kenneth Cole og The White Company, svo og Theo Fennell, Marni, Lauren og Made.

Salan í House of Fraser þrefaldaðist á síðasta rekstrarári og nam hún yfir einum milljarði punda eða um 200 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður ársins var 68. 1 milljón punda eða um 14 milljarðar íslenskra króna.

Verslanir Karen Millen, Oasis og All Saints – allt verslanir að hluta til í eigu Baugs, munu einnig opna þar á næstunni.