Breska tískuvöruverslunin House of Fraser, sem er í eigu Baugs, vinnur nú að því að koma upp  svokallaðri „outlet“ verslun þar sem aðeins verða seldar útsöluvörur. Áætlað er að sú fyrsta opni í Swindon í Englandi nú í nóvember.

Þetta kemur fram á vef MarketingWeek.

Þar er greint frá því að félagið áætli að selja vörur á allt að 70% afslætti til að bregðast við auknu framboði af tískuvöruverslunum sem selji vörur ódýrara en áður.

Þá kemur fram í fréttinni að viðskiptavinum House of Fraser hafi farið fækkandi síðustu misseri. Samkvæmt tölum frá Verdict Research hafa viðskiptavinir verslunarinnar ekki verið færri frá því árið 2001. Þar kemur fram að um 4,5% viðskiptavina versla við House of Fraser sem er fækkun upp á 0,4% frá árinu áður. Þetta er jafnframt þriðja árið í röð sem viðskiptavinum fækkar, segir í frétt MarketingWeek.

Þá kemur fram að reynist þessi tilraun með „outlet“ verslunina vel mun félagið opna þrjár aðrar verslanir á næstu mánuðum.