Tölvuframleiðandinn Hewlett Packard segir fyrirtækið Autonomy hafa blásið upp virði fyrirtækisins áður en það var tekið yfir af HP. Á grundvelli þessa hefur HP farið fram á að fjármálayfirvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi taki málið til rannsóknar. Eins og greint var frá í gær hefur HP neyðst til að færa virði Autonomy niður um andvirði rúmlega 1.100 milljarða íslenskra króna.

Fyrri stjórnendur Autonomy neita allri sök og er á vef BBC í dag haft eftir einum stjórnenda að þeir hafi orðið fyrir áfalli við að lesa yfirlýsingar HP um málið. Stjórnandinn segir HP hafa rannsakað fyrirtækið ítarlega fyrir yfirtökuna. Hann segir að eftir tíu ára uppbyggingastarf sé sárt að horfa á hvernig farið hafi fyrir fyrirtækinu eftir yfirtöku HP.

Hins vegar er haft eftir framkvæmdastjóra HP að þó að ítarleg rannsókn hafi farið fram á fyrirtækinu sé erfitt að finna vandamál þegar logið sé að rannsóknarmönnum.